Skip to content

Húsaskólaleikar og útskrift 7. bekkjar

Dagurinn var heldur betur viðburðarríkur í Húsaskóla. Nemendur hófu daginn á fjölgreindaleikum en öllum nemendum skólans var skipt upp í 16 hópa þvert á árganga. Nemendur 7. bekkjar og nokkrir 6. bekkingar voru titlaðir fyrirliðar hópanna. Þeir sáu um að stýra hópnum sínum á milli stöðva og vera hvetjandi og góðar fyrirmyndir. Kennarar sáu um að setja upp stöðvar sem voru fjölbreyttar og í anda fjölgreinda Howards Gardner. Því eins og allir vita þá eru allir góðir í einhverju og það var gaman að fylgjast með hópunum keppa í hinum ýmsu greinum. Nemendur fengu grillaðar pylsur í hádegismat og borðuðu úti í frabæru veðri. Eftir matinn fóru nemendur yngsta stigs í nokkra leiki á útilóð skólans og nemendur miðstigs kepptu sín á milli í íþróttahúsinu í skotbolta og fleiri greinum.

Síðar um daginn var komið að útskrift 7. bekkjar. Það var ánægjulegt að geta boðið foreldrum að vera viðstödd þegar við kvöddum þennan flotta hóp nemenda sem heldur nú á önnur mið í unglingadeild. Við eigum eftir að sakna þeirra og vonandi eiga þau eftir að kíkja í heimsókn í Húsaskóla áður en langt um líður.