Skip to content

Íslenskuþorpið – myndband

Viltu tala íslensku við mig?“ er samstillt átak Íslenskuþorpsins, grunnskólanna í Grafarvogi og á Kjalarnesi í íslensku sem öðru máli. Skólarnir halda dag íslenskrar tungu hátíðlegan með því að vekja athygli á mikilvægi samskipta á íslensku sérstaklega fyrir þá sem eru að læra íslensku. Í myndbandi til stuðnings átakinu hvetja nemendur og þjóðþekktir einstaklingar til samskipta á íslensku undir slagorðinu „Viltu tala íslensku við mig?“

Hægt er að horfa á myndbandið hér.

Skólarnir innleiða kennsluaðferðir og stuðningsnet Íslenskuþorpsins fyrir nemendur með íslensku sem annað mál. Markmiðið er að efla tjáningafærni og samskipti nemenda á íslensku og styðja við fjölmenningarsamfélag skólanna.

„Það er vel við hæfi að velja dag íslenskrar tungu til kynningar á átakinu og vekja athygli á mikilvægi þess að tala íslensku. Sérstaklega fyrir þá sem eru að læra málið. Það er mikið gleðiefni að skólasamfélagið í Grafarvogi og á Kjalarnesi skuli styðja á þennan hátt við fjölmenningu og hvetja til þess að íslenska sé töluð í skólunum. Rannsóknir sýna að samskipti og tjáning á tungumálinu eru lykillinn að því að ná tökum á því,“ segir Guðlaug Stella Brynjólfsdóttir, verkefnastjóri Íslenskuþorpsins.

Stuðningsnet á íslensku Íslenskuþorpið byggir á stuðningsneti þar sem velviljaðir einstaklingar skuldbinda sig til að taka á móti nemendum og tala íslensku við þá. Hver skóli hefur skipað þorpsstjóra sem heldur utan um nemendurnar og hvetur til samskipta á íslensku.

„Áhrif ensku á samskipti nemenda eru greinileg í skólanum. Við heyrum stundum nemendur, bæði þá sem eru með íslensku að móðurmáli og ekki, eiga samskipti á ensku í skólanum eða á skólalóðinni. Við vitum að fyrir þá sem eru að ná tökum á tungumálinu skiptir máli að fá æfingu í tjáskiptum til að ná árangri. Þess vegna skiptir verkefnið miklu máli – og líka til að viðhalda íslenskunni,“ segir Katrín Cýrusdóttir, tengiliður skólasamfélagsins í Grafarvogi og á Kjalarnesi.

Íslenskuþorpið hefur verið starfrækt í Háskóla Íslands frá árinu 2012 með áherslu á að skapa raunverulegar aðstæður fyrir nemendur þar sem megináhersla er lögð á hæfni til árangursríkra samskipta í samfélaginu.

Nánari upplýsingar er að finna á islenskuthorpid.is.