Foreldrafélag Húsaskóla

Foreldrafélag Húsaskóla var stofnað í mars 1992.  Allir foreldrar og forráðamenn nemenda í Húsaskóla eru sjálfkrafa félagar.  Markmið félagsins er m.a. að stuðla að öflugu samstarfi heimilanna og skólans og styðja við félagslíf nemenda.

Í hverjum bekk eru tveir bekkjarfulltrúar.  Þeir eru valdir til tveggja ára í senn en skipt út á víxl þannig að alltaf situr einn með reynslu.  Sjá nánar um hlutverk bekkjarfulltrúa.  Í stjórn foreldrafélags Húsaskóla situr einn bekkjarfulltrúi úr hverjum árgangi. Stjórnin fundar að jafnaði mánaðarlega og situr skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri alla fundi með stjórn.

Innan foreldrafélagsins hafa verið stofnaðar nefndir um hin ýmsu málefni er varða börnin og skólastarfið.  Sjá nánar um hlutverk nefnda.

Árlega er innheimt gjald í verkefnasjóð af öllum nemendum skólans.  Sá sjóður stendur straum af kostnaði við skemmtanir, fræðslufundi fyrir foreldra, útgáfu símaskrár og fleira.

Foreldra- og kennarafélagið hefur einnig styrkt skólann með gjöfum af ýmsu tagi.

Vinna í foreldrafélagi er gefandi starf og tengir foreldra við innra starf skólans, börnin í bekknum og ekki síst aðra foreldra.  Forráðamenn sem ekki hafa starfað í félaginu eru hvattir til að kynna sér hlutverk bekkjarfulltrúa og nefnda hér að neðan.  Bekkjarfulltrúar eru valdir að vori og sjá fráfarandi bekkjarfulltrúar um að nýir taki við og tilkynna nöfn þeirra til stjórnar.

Hlutverk nefnda

Fulltrúar gefa kost á sér í nefndir á  bekkjarráðsfulltrúafundi sem haldinn er í byrjun skólaársins.  Fulltrúar eru kosnir til tveggja ára í senn og er einum skipt út ár hvert.  Einn fulltrúi úr hverri nefnd situr í stjórn Foreldrafélags Húsaskóla.

Menningarnefnd

Menningarnefnd hefur það hlutverk að skipuleggja, undirbúa og sjá um framkvæmd jólaföndursdags og leikhúsferðar.

Hagsmunanefnd

Hagsmunanefnd hefur það hlutverk að fjalla um forvarnir og vímuefnavarnir, málefni unglinga, foreldrarölt, málefni frístundaheimilisins og jafnræði barna innan skólans.

Vorhátíðarnefnd      5 fulltrúar

Hlutverk og verksvið nefndarinnar:  Nefndin sér um undirbúning að vorhátíð skólans sem haldin er í maí ár hvert.  Nefndin þarf að koma saman í apríl, ákveða dagsetningu, efniskaup  (pylsur, drykki o.þ.h.), útbúa dreifibréf til skólabarna, ákveða hvaða skemmtiatriði eigi að vera, undirbúa ratleik eða aðra leiki.  Fulltrúar sjá um dreifingu veitinga, uppsetningu leiktækja með hjálp starfsmanna leiktækjaleigu og sjá um  helstu þrif á skólalóð eftir hátíð.   Fulltrúi úr Vorhátíðarnefnd situr í stjórn Foreldrafélagsins og boðar til funda nefndarinnar.

Ritnefnd         4 fulltrúar

Hlutverk og verksvið ritnefndar:  Ritnefnd gefur út  a.m.k. 2 fréttabréf á skólaárinu fyrir og eftir áramót.  Í fréttabréfinu eru upplýsingar til foreldra um skólastarfið.  Ritnefnd sér einnig um allan undirbúning að símaskrá skólans.

 

Prenta |