Skip to content

Kennsluhættir

Kennsluhættir

Stefna Húsaskóla tekur mið af grunnskólalögum, Aðalnámskrá grunnskóla og framtíðarsýn Reykjavíkurborgar. Einkunnarorð skólans eru jákvæðni – virðing – samvinna.

Markmið:

Að veita góða, alhliða menntun og stuðla að þroska hvers og eins nemanda

Markmið skólans er að veita öllum nemendum góða menntun og jöfn tækifæri til að þroskast fyrir líf og starf í íslensku þjóðfélagi. Tekið er mið af þörfum og hæfileikum hvers einstaklings. Kennarar kenna samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla og leitast við að beita fjölbreyttum kennsluháttum, einstaklingsmiðuðu námi, samvinnu nemenda, samþættingu náms og fjölbreyttum matsaðferðum. Skólinn nýtir sér niðurstöður úr stöðluðum skimunum og könnunum til greina vanda nemenda og koma til móts við mismunandi þarfir nemenda. Einnig eru niðurstöður samræmdra prófa nýttar til áframhaldandi kennslu. Markmiðið er að nemandinn nái árangri, hann sé áhugasamur um nám sitt og fái víðtæka þekkingu og færni.

Að stuðla að góðri líðan nemenda

Til þess að nemendum vegni vel í námi og að þeir geti öðlast þroska er mikilvægt að þeim líði vel í skólanum. Lögð er áhersla á að samskipti  starfsfólks, nemenda og foreldra einkennist af hlýhug og umhyggju. Mikilvægt er að nemendur séu öruggir í skólanum og á skólalóð, að þeim líði vel í skólanum og séu glaðir.  Allir starfsmenn skólans taka þátt í Olweusaráætlun gegn einelti með það að markmiði að enginn nemandi verði fyrir einelti. Brugðist er strax við ef grunur leikur á um slíkt. Með markvissri lífsleiknikennslu og sjálfsstyrkingu er lögð áhersla á að styrkja sjálfsmynd, samkennd og samskiptafærni nemenda. Skólinn leggur áherslu á forvarnarstarf og hvetur til hollra lífsvenja.

Að stuðla að góðu samstarfi við foreldra

Ánægðir foreldrar hafa jákvæð áhrif á nám og líðan barnsins. Lögð er áhersla á góða samvinnu við heimilin, góða upplýsingamiðlun og þátttöku foreldra í skólastarfinu. Skólinn hefur það að markmiði að hafa upplýsingar aðgengilegar á heimasíðu, í fréttabréfum og tilkynningum. Opin og virk samskipti eru mikilvæg ef upp koma erfiðleikar eða vandamál og eru foreldrar hvattir til að hafa samband við skólann ef eitthvað er. Haldin eru ýmis námskeið, fræðslu- og kynningafundir fyrir foreldra.

Að leggja áherslu á jákvætt, faglegt starfsumhverfi og starfsánægju

Lögð er áhersla á aukna samkennd og starfsánægju starfsmanna.  Jákvætt og gott starfsumhverfi laðar að sér hæft starfsfólk. Húsaskóli leitast við að fylgjast vel með nýjungum og kröfum sem gerðar eru til skóla með því að skapa faglega umræðu, efla símenntun starfsmanna og leggja fram metnaðarfulla símenntunaráætlun.   Lögð er áhersla á fagleg og markviss vinnubrögð allra starfsmanna.  Virkt starfsmannafélag starfar við skólann sem bryddar upp á ýmsu skemmtilegu t.d. jólaföndri, leirvinnu, vinadögum, þemu, gönguferðum, óvissuferðum og öðrum skemmtunum.