Móttaka nemenda með sérþarfir

Þegar nemandi hefur nám við Húsaskóla innritar foreldri nemanda í gegnum Rafræna Reykjavík. Ritari kemur upplýsingum til stjórnenda og afhendir nemanda stundaskrá, skóladagatal, skólareglur, innkaupalista, upplýsingar um mötuneyti og nestismál.

Sérkennsluþörf nemenda með sérþarfir í Húsaskóla er metin með skimunum á námslegri stöðu, annaprófum, sérhæfðum prófum, prófunum sérfræðinga, mati umsjónarkennara og sérkennara. Einnig er þörfin metin út frá gögnum sem berast frá leikskólum eða þeim skóla sem nemandinn kemur úr. Nemendur sem falla undir viðmið um fatlanir fá sérkennslu eða stuðning eins og með þarf hverju sinni enda hafi greining á erfiðleikum eða fötlun farið fram af viðurkenndum aðilum.

Stjórnendur boða forsjáraðila nemanda og þá starfsmenn sem koma til með að vinna með nemandanum, á móttöku fund þar sem tilfærsla nemandans er rædd og skipulögð.

Farið er með nemanda og forsjáraðilum um skólann og nemandi kynntur fyrir umsjónarkennurum og bekkjarfélögum.

  

Ýmis verkefni

 • Þegar nemandinn hefur verið samþykktur inn í skólann fer ritari skólans yfir skráningu hans í Mentor.
 • Upplýsingarblöðum um heilsufar er komið til skólahjúkrunarfræðings.
 • Skólastjóri upplýsir umsjónarkennara og aðra starfsmenn um komu nemandans í skólann.
 • Upplýsingaöflun: Ef nemandi þarf á sérúrræði að halda er deildarstjóri sérkennslu látinn vita. Hann hefur samband við skólann sem nemandinn er að koma úr að fengnu samþykki foreldra og fær áframsend gögn. Einnig hugar hann að því hvort skilafundur sé nauðsynlegur og tímasetur hann. Þá kemur hann upplýsingum til umsjónarkennara og forstöðumanns frístundaheimilis ef það á við.
 • Skólahjúkrunarfræðingur kemur heilsufarsupplýsingum til umsjónar-kennara og deildarstjóra sérkennslu ef þörf er á.
 • Umsjónarkennarar gæta þess að koma öllum upplýsingum varðandi skólastarfið til foreldra.
 • Umsjónarkennari sér til þess að fyrstu daga nemandans í skólanum sé honum fenginn tengiliður úr hópi samnemenda. Honum er ætlað að veita nýja nemandanum stuðning fyrstu vikurnar.

Móttökuviðtal

 • Móttökuviðtalið sitja forráðamenn, nemandi, skólastjórnandi, deildarstjóri sérkennslu, umsjónarkennari og aðrir þeir sem nauðsyn er talin á að sitji viðtalið.
 • Gerð er einstaklingsáætlun ef þarf, í samvinnu við deildarstjóra sérkennslu og umsjónarkennara. Jafnframt er ákveðið hvenær nemandinn er með í almennum bekk og hvenær í sérkennslu.
 • Í lok viðtals er ákveðinn fundatími með foreldrum, nemanda, umsjónarkennara og deildarstjóra. Sá fundur er til eftirfylgni og til að kanna líðan nemandans í skólanum.
 • Umsjónarkennari sér um að koma nauðsynlegum upplýsingum um nemandann til allra þeirra sem koma að kennslu hans í skólanum.

Eftirfarandi þættir eru útskýrðir fyrir forráðamönnum og nemandanum í móttökuviðtalinu:

 • Kynning á stoðþjónustu Húsaskóla.
 • Stundaskrá nemandans. Farið yfir hverja kennslustund þannig að ljóst sé um hvaða námsgrein er að ræða.
 • Íþróttir og sund. Staðsetning, fatnaður, reglur varðandi sturtu og mætingar.
 • Innkaupalistar útskýrðir. Hvað þarf að kaupa og hvað sér skólinn um að útvega.
 • Skóladagatal. Farið yfir þá daga sem ekki eru hefðbundnir skóladagar.
 • Símanúmer skólans, heimasíða og netföng kynnt.
 • Skólareglur og mætingarskylda.
 • Mötuneyti og nestismál kynnt forráðamönnum.
 • Frístundaheimilið Turn og Kastali kynnt ef um nemanda í 1. – 4. bekk er að að ræða.
 • Ákveðið hvenær nemandinn byrjar í skólanum.
 • Hvert á að snúa sér ef nemanda líður illa í skólanum.
 • Hlutverk forráðamanna hvað snertir heimanám og samstarf heimilis og skóla.
 • Mentor kynntur fyrir forráðamönnum og þeir fá lykilorð sent í tölvupósti.
 • Farin kynnisferð um skólann.

Umsjónarkennari sér um að koma nauðsynlegum upplýsingum um nemandann til allra þeirra sem koma að kennslu hans í skólanum.

Prenta |