Eineltisstefna Húsaskóla

  Olweusaráætlun gegn einelti og andfélagslegri hegðun

 Húsaskóli er  í hópi þeirra fjölmörgu skóla sem hafa innleitt Olweusaráætlunina til að draga úr einelti og andfélagslegri hegðun. Olweusaráætlunin er forvarnarverkefni sem unnið er á kerfisbundinn hátt. Markmiðið er að skapa jákvæðan skólabrag og bekkjaranda í þeim tilgangi að fyrirbyggja einelti og andfélagslega hegðun

 

Frá því að innleiðing Olweusaráætlunarinnar hófst í Húsaskóla hefur verið unnið samkvæmt eineltisáætlun sem er  heildstæð stefna til að fyrirbyggja einelti og annað andfélagslegt atferli.
Áætlunin nær til allra starfsmanna og hvílir á vitundarvakningu, kraftinum að öðlast þekkingu á eðli eineltis, viðbrögðum og færni til að takast á og leysa eineltismál.
Áætlunin nær til nemenda sem þjálfast í að bera virðingu hvert fyrir öðru, sýna tillitssemi og samúð hvert með öðru og taka afstöðu gegn eineltistilburðum.
Áætlunin nær til foreldra sem sameinast með  skólanum að tryggja börnum öryggi og með virkri hlustun að glöggva sig á líðan og hegðun barna sinna.

 

Í Húsaskóla er unnið eftir grunnþáttum Olweusaráætlunarinnar:

 • Verkefnið er sýnilegt  í skólanum og á heimasíðu.
 • Skýr verkefnisstjórn með verkefnisstjóra sem faglegum leiðbeinanda
 • Umræðuhópar – sem eru skipaðir öllum starfsmönnum skólans - koma saman a.m.k, fimm sinnum á ári.
 • Í upphafi skólaárs er nýtt starfsfólk frætt um grundvallaratriði verkefnisins.
 • Sérstakt eineltisteymi er umsjónarkennurum og öðru starfsfólki til ráðuneytis um lausnir í eineltismálum.
 •   Víðtæk eineltiskönnun er lögð fyrir á hverju ári.
 • Niðurstöður eineltiskönnunarinnar eru leiðbeinandi við endurskoðun eftirlitskerfis skólans sem þarf að fara fram tvisvar á ári.
 • Umsjónarkennarar halda reglulega bekkjarfundi a.m.k. tvisvar í mánuði. Bekkjarreglur – sem jafnframt eru hluti skólareglna – eru virtar af öllum og virkar í starfi.
 • Baráttan gegn einelti og fyrir bættum skólabrag er hluti af hverjum fundi með foreldrum.
 •  Starfsfólk þekkir vinnuferli í eineltismálum og styður hvert annað til að vinna í samræmi við þær vinnureglur.
 • Eineltishringurinn er í hverri stofu og á göngum skólans.

 

 Stefna skólans

Einelti er ekki ásættanlegt. Það er böl sem skerðir rétt þess sem fyrir verður til þess að njóta lífsins. Einelti í æsku getur verið afdrifaríkt og getur komið í veg fyrir að þeir sem fyrir verða nái að þroska með sér eðlilega sjálfsmynd, sjálfstraust og lífssýn.

 

Stefnuyfirlýsing:

 Starfsfólk Húsaskóla  lýsir því yfir að einelti og annað ofbeldi er ekki undir neinum kringumstæðum liðið í skólanum. Leitað verður allra ráða til að fyrirbyggja einelti og stöðva og leysa slík mál á farsælan hátt. Húsaskóli  á að vera öruggur vinnustaður þar sem starfið mótast af virðingu og umhyggju.

 

Skilgreining - Hvað er einelti?

 Einelti er niðurlægjandi áreitni eða ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, sem stýrt er af einstaklingi eða hópi og beinist að einstaklingi sem ekki tekst að verja sig. Einelti felur í sér að einstaklingur er tekin fyrir með síendurtekinni stríðni, látbragði, niðrandi ummælum og sögusögnum, andlegri kúgun, hótunum af ýmsu taki, líkamlegri misbeitingu, félagslegri höfnun og markvissri útskúfun.

 

Einelti getur verið beitt á margan hátt:

 Líkamlegt: Lemja, hrinda, sparka, stela og skemma eigur annarra.

 Yrt: Hóta, uppnefna, niðrandi athugasemdir.

 Óbeint: Útiloka úr hópnum, félagsleg einangrun, baktal og ljúga upp á.

 Rafrænt: Skeytasendingar í formi SMS skilaboða, tölvupósts, msn, á facebook eða með sambærilegum leiðum geta einnig flokkast sem einelti.

 

Til umhugsunar:

 Það er ekki einelti nema um sé að ræða ójafnvægi afls og valda í samskiptum. Sá sem verður fyrir áreiti á erfitt með að verja sig og er harla varnarlaus.

 Það er ekki form eineltis sem skiptir mestu máli heldur hvaða áhrif áreitið hefur á þolandann.

 Mikilvægt er að hafa í huga að gerendur eru ekki alltaf meðvitaðir um hversu sársaukafullt eineltið er.

 Allir geta lent í eineltisaðstæðum, annað hvort sem þolendur, gerendur og/eða meðhlauparar.

 Stríðni, átök og einstaka ágreiningur milli nemenda þarf ekki endilega að teljast til eineltis, en hafa verður vakandi auga með því að slíkt leiði ekki af sér frumstig eineltis.

 

Foreldrar

 Foreldrar fá ítarlega kynningu á áætluninni. Hér má finna ráð til foreldra komi upp eineltismál.

 Haldnir eru fundir með foreldrum þar sem ræddar eru aðgerðir í skólanum gegn einelti og hvernig foreldrar í hverjum bekk geta unnið markvisst með skólanum við að uppræta einelti.

 

Skóli

 Stöðug fræðsla fyrir starfsfólk. Allt starfsfólk skólans tekur þátt í Olweusaráætluninni. Það fær fræðslu og þjálfun í að vinna gegn einelti og er því betur í stakk búið til að koma í veg fyrir einelti.

 Virkt eftirlit í frímínútum, matarhléum, íþróttamannvirkjum og í ferðalögum á vegum skólans.

 Gerð er árlega könnun á umfangi eineltis í skólanum.

 Eineltisáætlun skólans er yfirfarin og endurskoðuð reglulega.

 Kennurum sem fást við einelti er boðin handleiðsla hjá eineltisteymi.

 Gátlisti um líðan nemenda er sendur heim fyrir foreldraviðtöl.

 Verkefnisstjóri heldur utan um og stýrir verkefnum Olweusaráætlunarinnar.

 

Nemendur

 Regluleg fræðsla fyrir nemendur um einelti.

 Bekkjarreglur: Farið er reglulega yfir bekkjarreglur gegn einelti. Nemendur ræða reglurnar og þýðingu þeirra fyrir bekkinn.

 Umsjónarkennarar hafa reglulega bekkjarfundi þar sem m.a. er rætt um líðan, samskipti og hegðun.

 Nemendur eru þjálfaðir í að tjá eigin tilfinningar og sjónarmið.

 Fundirnir eiga að stuðla að samstöðu nemenda gegn einelti.

 Hlutverkaleikir eru notaðir til að auka upplifun nemenda og skilning á einelti og til að hvetja þá til að bregðast við því.

 Tekið er á móti nýjum nemendum samkvæmt skráðri áætlun sem er í handbók starfsmanna.

 Umsjónarkennari/námsráðgjafi leggja fyrir eineltiskannanir og/eða tengslakannanir í bekkjum.

 Yngri bekkirnir vinna reglulega vinaverkefni.

 Yngstu bekkirnir eiga vinabekki á miðstigi .

 Samkomulag milli foreldra um afmælisboð og aðrar samkomur innan bekkjarins.

 Nemendur þjálfist í að vinna í hópum og sýna hver öðrum tillitssemi, sveigjanleika og umburðarlyndi.

 

Eineltisteymi

 Í Húsaskóla  er starfandi ráðgefandi eineltisteymi sem er kennurum til stuðnings við úrlausn eineltismála og sinnir fyrirbyggjandi aðgerðum í eineltismálum

 Teymið miðlar sérfræðiþekkingu, heldur saman upplýsingum og safnar efni um eineltisfræðslu fyrir öll aldursstigin og byggir upp gagnabanka fyrir kennara.

 

 Hér má finna:

 Vinnuferli þegar upp kemur grunur um einelti

Tilkynningarblað vegna gruns um einelti

 

 

Prenta |