Skip to content

Um skólann

 

 

Velkomin á heimasíðu

Húsaskóla

Húsaskóli er grunnskóli fyrir nemendur í 1. – 7. bekk. Skólinn stendur við Dalhús 41 í Reykjavík. Á þessu skólaári eru nemendur 135 og starfsmenn um 29 talsins.

Einkunnarorð skólans eru jákvæðni – virðing – samvinna

Stjórnendur skólans

Skólastjóri Húsaskóla er Katrín Cýrusdóttir

Netfang: katrin.cyrusdottir@rvkskolar.is

Aðstoðarskólastjóri er Jóna Rut Jónsdóttir

Netfang: jona.rut.jonsdottir@rvkskolar.is

Deildarstjóri stoðþjónustu er  Jóhanna Lovísa Gísladóttir

Netfang: johanna.lovisa.gisladottir@rvkskolar.is

 

Saga skólans

Efni þessarar greinar er úr afmælisriti Húsaskóla í tilefni 20 ára afmælis Húsaskóla og er greinin rituð af Valgerði Selmu Guðnadóttur þáverandi skólastjóra í maí 2011.

20 ára saga Húsaskóla
Tuttugasta starfsári Húsaskóla er nú að ljúka og bernskuárin að baki, tími mikillar uppbyggingar og mikilla breytinga og enn er ekki séð fyrir endann á breytingum. Fyrstu 10 ár Húsaskóla fjölgaði ört í skólanum frá því að vera 127 nemenda skóli, með 8 bekkjardeildir, 4 árganga og 14 starfsmenn, upp í að vera heild-stæður skóli frá 1.-10. bekk með alls 515 nemendur í 26 bekkjardeildum og 62 starfsmenn árið 2000-2001. Upp úr því fór aftur fækkandi og í dag eru 270 nemendur í 16 bekkjardeildum og 51 starfsmaður.
Á 20 ára afmælisári er rétt að líta til baka og rifja upp söguna frá stofnun skólans til dagsins í dag. Undirbúningur skólastarfsins
1. júní 1991 var undirrituð, Valgerður Selma Guðnadóttir ráðin skólastjóri Húsaskóla. Ég fékk því tækifæri til að starfa með byggingarnefnd skólans frá upphafi. Kennarar skólans voru ráðnir um sumarið. Starfsmenn skólans voru í upphafi 14. Þeir voru auk skólastjóra 9 kennarar, einn ritari, starf-smaður sem sá um kaffi fyrir kennara og gæslu fyrir nemendur, 2 starfsmenn sáu um ræstingar en enginn um-sjónarmaður var starfandi við skólann. Fyrsta veturinn var kennt í 5 færanlegum kennslustofum, íþróttakennslan fór fram í Hamraskóla og sundkennsla í Sundlauginni við Austurberg í Breiðholti. Sjötta kennslustofan var hólfuð niður og notuð sem skrifstofa skólans, skrifstofa skólastjóra, kaffistofa og vinnuaðstaða kennara.

Fyrsti kennarafundurinn var haldinn 2. september og tekið var á móti nemendum 5. september en kennsla hófst ekki fyrr en miðvikudaginn 11. september vegna þess að kennslustofurnar voru ekki tilbúnar til kennslu fyrr.

Skólastarfið fyrsta veturinn
Það var samheldinn hópur sem vann saman við mjög frumstæð skilyrði þetta fyrsta skólaár og það er gaman að fletta fundargerðarbókum kennarafunda fyrsta veturinn, þar ríkti mikill metnaður sem hefur haldist æ síðan. Fljótlega var hafist handa við að búa til skólareglur sem hæfðu okkar litla samfélagi. Við fundum fljótlega fyrir því að mikið rót og spenna var hjá nemendum eins og gjarnan vill verða í nýjum hverfum. Við ákváðum að skólinn myndi einbeita sér að því að vinna með vináttuna og hafa þemaviku í tengslum við hana og fékk ég námskeið fyrir kennara um Vináttu og samskipti sem Sigrún Arinbjarnar-dóttir og Árný Elíasdóttir sáu um. Þær kynntu einnig nýtt námsefni sem þær sömdu og var nýbúið að tilraunakenna. Námsefni þetta er notað enn þann dag í dag í lífsleikni og þar er tekið á samvinnu og samskiptum nemenda bæði inni í skólastofunni og á leikvelli. Þröngt var um skólastarfið þetta fyrsta skólaár en þarna myndaðist heimilislegur bragur.
Undirbúningur að stofnun foreldra- og kennarafélags fór í gang eftir áramótin og var það síðan stofnað 26. mars 1992. Úr ræðu skólastjóra á fyrsta kennarafundi 1992:
…,,Við verðum að leggja okkur fram við það að hlúa sem best að þeim einstaklingum sem okkur er trúað fyrir þ.e. nemendum okkar. Til þess að við getum gert kröfur til þeirra um góða framkomu verðum við að sýna þá fyrirmynd sjálf. Traust og gagnkvæm virðing er forsenda þess að okkur takist að skapa góðan skóla. Vegna ýmissa breytinga sem hafa átt sér stað í þjóðfélaginu verða skólarnir í auknum mæli að takast á við félagsleg vandamál nemenda sinna ekki síður en námsvanda þeirra. Okkur ber því að leita eftir samstarfi við heimilin og foreldrana. Ört stækkandi skóli
Haustið 1992 var fyrsti áfangi skólans tekinn í notkun og hafði þá bygging hans aðeins tekið 6 mánuði og þegar skóla-starfið fór af stað voru mörg handtök eftir og unnum við í sátt og samlyndi við iðnaðarmenn langt fram eftir hausti. Nemendum hafði fjölgað úr 127 í 296 sem er u.þ.b. 135% fjölgun. Upphaflega hafði verið ákveðið að árgangarnir sem byrjuðu fyrsta árið fengju að vaxa upp með skólanum. Þetta gekk þó ekki eftir því að nú bættust við 2 árgangar til viðbótar og var þá skólinn kominn með 7 árganga strax á öðru starfsári í 14 bekkjardeildum.
Aðstoðarskólastjóri, Kristín V. Þórðardóttir, var ráðinn til starfa þetta skólaár. Skólaárið hófst með því að allir kennarar skólans fóru á námskeið í skólanámskrárgerð í ágústmánuði og helgaðist starf vetrarins af þeirri vinnu.
Íþróttahúsið var tekið í notkun í októbermánuði og minnkaði þá skólaakstur sem var nú eingöngu tengdur sundinu.
Þetta skólaár lagði ég áherslu á foreldrasamstarf og brýndi fyrir kennurum nauðsyn þess að hafa gott samstarf við heimilin og foreldrana.

Skólinn og heimilið eru þeir tveir aðilar sem annast kennslu og uppeldi barna og unglinga í 10 ár sam-fleytt. Þessir tveir aðilar þurfa að starfa á jafnréttisgrundvelli. Þá tekst ef til vill að minnka þá spennu sem ríkir í lífi barna og unglinga á þessum árum. Kennarar eru fagmenn sem annast kennslu og uppeldi í skólum, foreldrar eru uppalendur sem annast kennslu og uppeldi á heimilum sínum. Þessir tveir hópar eiga að hafa sem jafnasta aðstöðu og völd til að sinna störfum sínum. Hvorugur hópurinn getur komið í stað hins en saman vinna þeir mikilvægustu störfin í samfélaginu. Þeirra í milli verður því að ríkja full-komið traust og gagnkvæm virðing.