Heimanám

Heimanám er mikilvægt og er áhersla lögð á að foreldrar líti til með heimanámi barna sinna. 

Heimanám nemenda er birt vikulega á Mentor.is. Allir nemendur eiga að lesa upphátt heima í 15 mínútur á dag a.m.k. 5 daga vikunnar. Foreldrar kvitta fyrir heimalestur og nemendur fá sérstaka heimalestrareinkunn í lok annar.

Foreldrar geta veitt börnum sínum hjálp við heimavinnu og ýmis verkefni. Það er mikilvægt að sýna barninu áhuga og spyrja hvað sé verið að gera í skólanum. Þannig stuðla þeir að betri námsárangri barna sinna. Sumir nemendur læra heima án aðstoðar en aðrir þurfa hjálp og hvatningu. Þess vegna er nauðsynlegt að skapa sem bestar aðstæður og næði fyrir heimavinnu nemenda auk þess að stuðla að því að börn læri að temja sér góðar vinnuvenjur. Heimanám getur verið indæll tími með barninu og kjörið tækifæri til að tala saman.

Eftir því sem líður á skólagönguna eykst heimavinnan. Rannsóknir benda til að viðhorf nemenda til skóla, námsárangurs, skólasóknar, áhuga, sjálfsmats og hegðunar ráðist af viðhorfum foreldra til skóla og áhuga þeirra á námi barns síns. Einnig hefur sýnt sig að þátttaka foreldra og stuðningur við nemendur sem eiga í mestum erfiðleikum varðandi nám reynist langmikilvægasti þátturinn í að bæta árangur þeirra í skóla.

Prenta |