Prófundirbúningur og prófkvíði

Til að vel takist í námi er mikilvægt að prófundirbúningur hefjist um leið og skóli byrjar. Tileinkaðu þér námstækni sem hentar þér og skipuleggðu tíma þinn vel. Fylgstu vel með í kennslustundum, glósaðu niður aðalatriði í stílabók og spurðu kennara eða samnemendur út í vafaatriði. 
Nýttu hæfileika þína til fulls jafnt og þétt yfir veturinn. Lestu allt námsefni vel, rifjaðu upp reglulega og láttu einhvern heima fyrir hlýða þér yfir, ef mögulegt er. Það er ekki ávísun á gott gengi að frumlesa efni fyrir próf. 
Þegar líður að prófi skaltu hafa öll atriði hvað það varðar á hreinu. Fáðu upplýsingar frá kennara, m.a. um hvað sé nákvæmlega til prófs, hvernig prófið verði byggt upp, hvaða kröfur hann geri til frágangs (til dæmis lengd svara og þess háttar) og síðast en ekki síst hvað þú hafir langan tíma til að leysa það.

Þegar þú sest niður við próflestur er mikilvægt að skipuleggja bæði vinnu og tíma vel. Gerðu áætlun sem hentar þér, bæði langtímaáætlun sem og áætlun fyrir hvern dag. Hafðu í huga hversu marga daga þú áætlar í lærdóm fyrir hvert fag og hversu margar klukkustundir á dag þú telur þig þurfa. Mundu að hafa allar aðstæður til próflesturs sem bestan, gott er að finna stað án alls áreitis og einbeita sér þannig alfarið að bókunum. Taktu til á skrifborðinu þínu og mundu að vellíðan fylgir því að hafa röð og reglu í kringum sig. Mikilvægt er að taka sér hlé á ca. 30 mínútna fresti.

Flokkaðu allt námsefni sem fylgir hverju fagi. Taktu það efni saman sem tilheyrir hverri grein ( til dæmis námsbækur, möppur, verkefni, glósur og gömul próf) og flokkaðu síðan efni innan hverrar greinar (til dæmis málfræði sér og bókmenntir sér).
Gerðu áætlun yfir það sem þér finnst þú þurfa að leggja áherslu á í hverju fagi. Gott er að skrifa niður þá kafla sem þú ætlar þér að lesa á hverju degi og þau verkefni sem þú ætlar að lesa eða leysa og síðan merkja við þegar því er lokið. Því fylgir léttir að merkja við það sem lokið er og gefur ákveðna yfirsýn yfir hvernig undirbúningur gengur. 
Í prófundirbúningi er síðast en ekki síst mikilvægt að huga vel að matarræði og svefni. Hollt matarræði og góður svefn hafa áhrif á minni og einbeitingu. Reyndu að borða oft en lítið í einu (til dæmis á 2 klst fresti) og reyndu að sofa í að minnsta kosti 8 klst á nóttu hverri. Það munar öllu að vakna úthvíldur. Ef þreytan kallar á þig á miðjum degi, skaltu varast að sofa lengur en í 1 klst og mun frekar fá orku með stuttum göngutúrum, sundferð eða öðru slíku. 
Mundu að það er mjög eðlilegt að finna fyrir spennu fyrir próf. Ef kvíðinn verður aftur á móti svo mikill að þú teljir þig ekki geta sýnt á prófinu hvað í þér býr, þarftu aðstoð við að leysa vandann, til dæmis með aðstoð námsráðgjafa. Prófkvíði er algengur og getur haft áhrif í för með sér andlega og líkamlega vanlíðan. Algengasta tegund prófkvíða er þó þess eðlis að nemendinn finnur að hann er ekki eins vel undirbúinn undir próf og hann gæti verið. Ef svo er, þarf viðkomandi ef til vill að endurskoða námstækni og leita sér sömuleiðis aðstoðar hjá námsráðgjafa. Framkvæmdu og náðu þeim árangri sem þú vilt. Það er aldrei of seint að byrja! Þú getur lært allt sem þú vilt og gert hvað sem þú vilt. 


Daginn fyrir próf 
Daginn fyrir próf skaltu reyna að nýta vel og tileinka að mestu upprifjun. Fáðu einhvern til að hlýða þér yfir en forðastu að bera þig saman við aðra í kringum þig. Hver um sig hefur sinn háttinn á. Sjáðu til þess að þú sért klár á próftíma, prófstað og þeim upplýsingum sem kennari gaf upp um uppbyggingu prófs. Hafðu til áður en þú ferð að sofa öll hjálpargögn (bláan eða svartan penna, blýant, strokleður, blý, reiknivél, reglustiku, hringfara, tippex og nesti) og fáðu stuðning frá þeim sem þér standa næst.

Prófdagur
Vaknaðu tímanlega og full jákvæðni. Fáðu þér staðgóðan morgunverð og passaðu á að mæta nokkru fyrir prófið til að forðast óþarfa stress. Forðastu að tala við samnemendur þína um efni prófsins og forðastu að skoða námsefni á prófstað.
Í prófinu sjálfu skaltu hlusta vel á fyrirskipanir kennara áður en próftíminn hefst. Haltu ró þinni og sannfærðu sjálfan þig um að þér muni takast vel til. Jákvætt hugarfar fleytir flestum langt. Teldu þig trú um að þú sért búin að gera allt í þínu valdi til að undirbúa þig sem best undir prófið og mundu að lífið heldur áfram þó prófið fari ef til vill ekki á þann veg sem þú hefðir helst óskað eftir.
Skoðaðu prófið í heild sinni og skráðu til hliðar við hverja spurningu ef þú manst svarið eða einhver minnisatriði sem gætu hjálpað þér við að svara spurningunni síðar.
Hafðu lengd prófs í huga á meðan á prófi stendur og gættu að tímanum. Staldraðu ekki lengi við spurningar sem þú telur þig ekki hafa svör við, heldur geymdu þær þangað til undir lokin. Það sem þú manst ef til vil ekki í byrjun prófs, gæti komið þegar líður á. Ef þú veist ekki svar, mundu þá að giska fremur en að sleppa við spurningu.
Vertu nákvæmur og vandvirkur í svörum en forðastu óþarfa „langlokur“. Skrifaðu skýrt og vandaðu uppsetningu. GANGI ÞÉR VEL!!!

Prenta |