Sérkennsla í Húsaskóla

Sérkennsla
Sérkennsla Húsaskóla byggir á grunnskólalögum nr. 91/2008, 17. grein aðalnámsskrá grunnskóla og stefnu Menntasviðs Reykjavikurborgar um sérkennslu.

,,Sérkennsla getur falið í sér breytingar á  námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og /eða kennsluaðferðum miðað við það sem öðrum nemendum á sama aldri er boðið upp á”.
Meginmarkmið með sérkennslu er að stuðla að alhliða þroska nemenda, bæði andlegum og líkamlegum. Tekið er mið af þörfum og hæfileikum hvers einstaklings. Leitast er við að ná þessum markmiðum með jákvæðu viðmóti og virðingu fyrir einstaklingnum um leið og lögð eru fyrir verkefni við hæfi.
Hver skóli fær úthlutað sérkennslutímum miðað við nemendafjölda skólans að vori og einnig vegna einstakra nemenda með mikla þörf fyrir séraðstoð. Skólastjórn, sérkennarar, deildarstjóri sérkennslu og umsjónarkennarar skipta þessum tímum milli þeirra nemenda sem hafa mesta þörf fyrir sérkennslu. Einnig ræða umsjónarkennarar eða foreldrar við sérkennara varðandi nýja nemendur sem þurfa sérkennslu og sækja umsjónarkennarar  um sérkennslu  í framhaldi af því.  Nauðsynlegt er að forgangsraða. Umsjónarkennarar upplýsa foreldra þegar nemandi byrjar í sérkennslu.
Nám er skipulagt til lengri tíma með nemendum sem eru í sérkennslu og eru fundir með foreldrum, deildarstjóra sérkennslu, skólastjóra og/eða fulltrúa skólastjóra og umsjónarkennara. Í framhaldi af  því er unnin einstaklingsnámskrá. Umsjónarkennari og sérkennari annast þá vinnu í samvinnu við foreldra.
Meginstefnan er að kennslan fari fram í skóla barnsins. Telji foreldrar eða forráðamenn barns, kennarar eða aðrir sérfræðingar að barnið fái ekki notið kennslu við sitt hæfi í þeim skóla geta foreldrar eða forráðamenn sótt um kennslu fyrir nemanda í öðrum skóla, sérskólum, sérhæfðum sérdeildum eða leitað annarra úrræða. Mikilvægt  er að finna sem first þau born sem þurfa sérkennslu svo markviss kennsla geti hafist.  Fjórir stuðningsfulltrúar starfa við skólann.


Talkennari:

Húsaskóli tekur þátt í þróunarverkefni um talþjálfun ásamt öðrum grunnskólum Grafarvogs og Kjalarness. Talkennarar hverfisins vinna saman í Miðgarði og annast greiningu og meðferð þeirra nemenda sem eiga við mál- og talörðugleika að etja í leik- og grunnskólum hverfisins. Talkennari hittir alla nemendur fyrsta bekkjar að hausti og annast málþroskaathugun þeirra. Í framhaldi af skilafundi til foreldra er þeim nemendum sem þess þurfa boðið upp á ráðgjöf eða þjálfun. Markmið talkennslu er að stuðla að bættum framburði og almennum málþroska nemenda. Til þess að góður árangur náist er nauðsynlegt að kennarar og foreldrar hafi gott samstarf.

Sé um alvarlega talgalla að ræða  eða röskun á málþroska þurfa foreldrar að leita talmeinafræðinga utan skólans. Forsendur fyrir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í talþjálfun er að fyrir liggi sjúkdómsgreining frá lækni og skrifleg þjálfunarbeiðni frá talmeinafræðingi sem starfar samkvæmt rammasamningi við SÍ.

Áður en þjálfun hefst þarf að liggja fyrir beiðni læknis um talþjálfun. Þá beiðni skal afhenda talmeinafræðingi sem sér um að senda beiðnina til SÍ. Sé beiðni samþykkt fær hinn sjúkratryggði 20 skipti í talþjálfun á hverju 12 mánaða tímabili.  Talmeinafræðingur þarf að sækja sérstaklega um heimild til SÍ til meðferða umfram 20 skipti sé þess þörf.

Greiðsluþátttaka SÍ fer eftir gildandi reglugerð um þjálfun sem sjúkratryggingar taka til sem gefin er út af velferðarráðuneyti. Nánari upplýsingar um talþjálfun má sjá á vef Sjúkratrygginga Íslands  www.sjukra.is .Nemendur með annað móðurmál / nýbúakennsla
Nemendur með annað móðurmál en íslensku eiga rétt á aukinni kennslu í íslensku.
Við innritun barna í skóla sem eru af erlendum uppruna eru notuð sérstök innritunareyðublöð frá Menntasviði Reykjavíkur sem til eru á fjórtán tungumálum.
 Nýbúakennsla er skipulögð af skólastjórn og deildarstjóra sérkennslu í samvinnu við kennara. Kennarar skipuleggja kennslu, sjá um þýðingar og nýta túlkaþjónustu Alþjóðahússins. Skólinn getur leitað eftir ráðgjöf hjá Miðgarði. Námsefni fyrir nýbúa er nýtt ásamt námsefni skólans. Leitast er við að kynna nemendum íslenska menningu. Með Olweusaráætluninni gegn einelti vinnur skólinn m.a. gegn fordómum gagnvart þeim sem eru af erlendu bergi brotnir. Unnið er að því að setja saman námskrá í lífsleikni þar sem m.a. er fjallað um mannréttindi, mismunandi menningarheima og einstaklingsmismun. Virk samskipti eru á milli nýbúakennara, foreldra, nemenda og kennara.     

Prenta |