Skip to content
Stoðþjónusta
Áætlanir
Ýmislegt

Sérkennsla Húsaskóla byggir á: grunnskólalögum nr. 91/2008, 17. grein;  aðalnámskrá grunnskóla og stefnu Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar um sérkennslu.

,,Sérkennsla getur falið í sér breytingar á  námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og /eða kennsluaðferðum miðað við það sem öðrum nemendum á sama aldri er boðið upp á”.

Meginmarkmið með sérkennslu er að stuðla að alhliða þroska nemenda, bæði andlegum og líkamlegum. Tekið er mið af þörfum og hæfileikum hvers einstaklings. Leitast er við að ná þessum markmiðum með jákvæðu viðmóti og virðingu fyrir einstaklingnum um leið og lögð eru fyrir verkefni við hæfi.

Hver skóli fær úthlutað sérkennslutímum miðað við nemendafjölda skólans að vori og einnig vegna einstakra nemenda með mikla þörf fyrir séraðstoð. Skólastjórn, sérkennarar, deildarstjóri sérkennslu og umsjónarkennarar skipta þessum tímum milli þeirra nemenda sem hafa mesta þörf fyrir sérkennslu. Einnig ræða umsjónarkennarar eða foreldrar við sérkennara varðandi nýja nemendur sem þurfa sérkennslu og sækja umsjónarkennarar  um sérkennslu  í framhaldi af því.  Nauðsynlegt er að forgangsraða. Umsjónarkennarar upplýsa foreldra þegar nemandi byrjar í sérkennslu.

Nám er skipulagt til lengri tíma með nemendum sem eru í sérkennslu og eru fundir með foreldrum, deildarstjóra sérkennslu, skólastjóra og umsjónarkennara. Í framhaldi af  því er unnin einstaklingsnámskrá. Umsjónarkennari og sérkennari annast þá vinnu í samvinnu við foreldra.

Meginstefnan er að kennslan fari fram í skóla barnsins. Telji foreldrar eða forráðamenn barns, kennarar eða aðrir sérfræðingar að barnið fái ekki notið kennslu við sitt hæfi í þeim skóla geta foreldrar eða forráðamenn sótt um kennslu fyrir nemanda í öðrum skóla, sérskólum, sérhæfðum sérdeildum eða leitað annarra úrræða. Mikilvægt  er að finna sem fyrst þau börn sem þurfa sérkennslu svo markviss kennsla geti hafist.  Þrír stuðningsfulltrúar starfa við skólann.